Hafðu samband: 520 4000 snerpa@snerpa.is

Selja litla

elja litla fæddist fyrir vestan,
frjáls og hraust í túni lék hún sér,
hlaut, við nám og erfðir, allra bestan
yndisleik, sem telpum gefinn er.

Svo varð hugur hennar stór og dreyminn,
hjartað sló í vængjaléttri þrá
til að fljúga eitthvað út í heiminn
ævintýraborgirnar að sjá.

Þreyjulaus er þráin eins og bára.
Þungabrim er léttur súgur fyrst.
Því fór Selja litla, sextán ára,
suðurleið í höfuðborgarvist.

Þar var margt um lífsins leik og kæti,
léttur hlátur glaðrar stúlku beið.
Það var eins og þessi kviku stræti,
þrungin lífi, gerðu henni seið.

Næsta sumar var um margt að velja.
Vesturförin yst á haka sat.
Knæpa réði Selju til að selja
setuliði drykk og léttingsmat.

Þar er hún með brosið bjarta og hýra,
borðið þekur drykk og vistum enn
fyrir hermenn ásta og ævintýra,
ameríska gesti. - Seljumenn.

Jón Jónsson frá Hvanná / Guðmundur Ingi Kristjánsson